Environice hefur um árabil veitt sveitarfélögum og einstökum fyrirtækjum ráðgjöf vegna undirbúnings fyrir vottun samkvæmt stöðlum Earth Check, (áður Green Globe). Reyndar var Environice á ýmsan hátt  frumkvöðull í Evrópu hvað þetta varðar. Guðlaugur heitinn Bergmann var upphafsmaður þessarar vinnu, en hann hóf baráttu sína fyrir vottun einstakra samfélaga og fyrirtækja þegar á árinu 2000, þegar fæstir höfðu enn leitt hugann að slíku hérlendis svo orð væri á gerandi.

Environice hefur aðstoðað sveitarfélögin á Snæfellsnesi við Earth Check starfið frá upphafi, en verkefnið er samstarfsverkefni allra fimm sveitarfélaganna á nesinu. Hlutverk Environice hefur m.a. falist í aðstoð við stefnumótun og uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfis, gerð verklagsreglna og liðsinni við lausn einstakra vandamála, svo sem hvað varðar söfnun, túlkun og samræmingu tölulegra upplýsinga frá sveitarfélögunum (grænt bókhald), aðstoð við gerð áhættumats o.s.frv.

Snæfellsnes varð fyrsta samfélagið í Evrópu og það fjórða í heiminum til að fá fullnaðarvottun skv. staðli Earth Check fyrir samfélög. Formleg staðfesting á þessu var afhent vorið 2008. Hægt er að lesa meira um einstakan árangur Snæfellsness á þessu sviði á heimasíðu verkefnisins á nesinu, www.nesvottun.is.

Frumkvæði sveitarfélaganna á Snæfellsnesi í starfinu að sjálfbærri þróun hefur vakið athygli innanlands sem utan. Hugmyndir sem uppi eru um norrænt vottunarkerfi fyrir sjálfbærnivottun áfangastaða ferðamanna eru m.a. byggðar á reynslu Snæfellinga hvað þetta varðar.

Viðskiptavinur: Framkvæmdaráð Snæfellsness v/Earth Check

Áætlaður tímarammi: Ótímabundið. Hófst árið 2003.

Tengd útgáfa: Sjá www.nesvottun.is