Stefán Gíslason fjallaði um loftslagsmál í skipulagsáætlunum í erindi sínu á hinum árlega Skipulagsdegi sem Skipulagsstofnun stóð fyrir í Gamla bíói í gær í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Skipulagsdagurinn var að þessu sinni að mestu helgaður fyrirhugaðri endurskoðun á landsskipulagsstefnu, en samkvæmt tilmælum núverandi umhverfisráðherra verður bætt í stefnuna sérstökum áherslum varðandi loftslagsmál, landslag og lýðheilsu. Aðalræðumaður dagsins var Charles Campion, arkitekt og borgarhönnuður, sem leiðir samráðsskipulagsteymi hjá ráðgjafarstofunni JTP í London. Charles fjallaði um samráðsnálgun við skipulagsgerð með sérstakri áherslu á mikilvægi þátttöku almennings í skipulagsgerðinni. Í ráðstefnulok voru pallborðsumræður þar sem Stefán var einnig meðal þátttakenda.

Birna Björk Árnadóttir, sérfræðingur á sviði aðalskipulags hjá Skipulagsstofnun, tók meðfylgjandi myndir. Á pallborðsmyndinni eru f.v.: Rangar Frank Kristjánsson Borgarbyggð, Hrönn Hrafnsdóttir Reykjavíkurborg, Árni Bragason landgræðslustjóri, Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt, Stefán Gíslason frá Environice, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri skipulagsstofnunar, Gígja Gunnarsdóttir Landlæknisembættinu og Anna María Bogadóttir, arkitekt.