Í vikunni var birt minnisblað Environice um meðhöndlun dýraleifa, sem tekið var saman að beiðni Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í minnisblaðinu (sem í reynd er fremur skýrsla en minnisblað) er gefið yfirlit yfir núverandi ráðstöfun dýraleifa á Íslandi, farið yfir gildandi löggjöf um þessi efni, sagt frá helstu áformum sem uppi eru um breytta meðhöndlun, rýnt í hlutverk og skyldur sveitarfélaga á þessu sviði, brugðið upp mynd af fyrirkomulaginu á hinum Norðurlöndunum og settar fram tillögur um hvernig hægt væri að haga þessum málum á Íslandi.

Eins og fram kemur í minnisblaðinu er ráðstöfun dýraleifa á Íslandi í miklum ólestri. Urðun hefur allt til þessa dags verið ein helsta ráðstöfunarleiðin fyrir dýraleifar hérlendis, bæði fyrir áhættuminni úrgang úr áhættuflokki 3 og áhættuúrgang úr áhættuflokkum 1 og 2, þrátt fyrir að urðun ómeðhöndlaðra dýraleifa sé í öllum aðalatriðum óheimil – og hafi verið það allt frá haustinu 2011. Í júlí 2022 féll dómur í EFTA-dómstólnum þess efnis að íslensk stjórnvöld hefðu látið hjá líða að koma þessum málum í ásættanlegt horf m.t.t. gildandi Evrópureglugerða um aukaafurðir dýra.

Í minnisblaðinu er m.a. lagt til að byggt verði upp kerfi á landsvísu fyrir söfnun, frágang og flutning dýraleifa frá búrekstraraðilum og vinnslustöðvum, auk þess sem byggðir verði upp innviðir til úrvinnslu sem afkasta því magni sem til fellur og samræmast áherslum hringrásarhagkerfisins. Jafnframt þurfi að laga gjaldskrár og móttökuskilyrði urðunarstaða að þessu nýja fyrirkomulagi. Aðgerðir til úrbóta verði byggðar á þeirri reynslu sem þegar er fengin á hinum Norðurlöndunum, þar sem söfnun, frágangur, flutningar og úrvinnsla dýraleifa er í öllum aðalatriðum í höndum eins fyrirtækis í hverju landi. Þessi fyrirtæki eru að mestu leyti í eigu sláturleyfishafa og búrekstraraðila og sveitarfélög virðast hvergi koma að málum með beinum hætti, hvorki með eignarhaldi né milligöngu varðandi söfnun eða annað. Á hinum Norðurlöndunum virðist urðun dýraleifa nánast óþekkt og dýraleifum er hvergi fargað með brennslu, nema þá í algjörum undantekningartilfellum. Efni úr öllum áhættuflokkum er hins vegar nýtt til framleiðslu á fitu og mjöli með mismunandi notkunarsvið í samræmi við áhættuna.

Minnisblaðið hefur þegar verið kynnt á nokkrum fundum með sveitarstjórnarfólki á Vesturlandi og mun einnig vera til umræðu hjá sveitarstjórnarfólki í öðrum landshlutum.

Minnisblaðið sem hér er til umræðu er hluti af stærra verkefni undir yfirskriftinni Flokkun í anda hringrásarhagkerfis, en verkefnið er áhersluverkefni í Sóknaráætlun Vesturlands 2022-2024, auk þess sem það er styrkt af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Hægt er að nálgast minnisblaðið á heimasíðu SSV og hér að neðan.