Hrafnhildur er Reykvíkingur í báðar ættir en elur manninn sem stendur í sólríkum skógi í Norður-Karólínu á austurströnd Bandaríkjanna, innan um dádýr, þvottabirni og pokarottur. Hrafnhildur útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 2008 með MA-próf í lögfræði og hefur unnið á sviði umhverfisréttar allar götur síðan, við rannsóknir, stjórnsýslustörf og kennslu. Eftir útskrift starfaði hún hjá Lagastofnun Háskóla Íslands þar sem hún fór ofan í saumana á skuldbindingum Íslands skv. loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Kýótó-bókuninni, en þeirri rannsókn lauk með útgáfu ritsins Réttarreglur um losun gróðurhúsalofttegunda. Frá vorinu 2009 hefur Hrafnhildur starfað sem lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun þar sem hún hefur einkum fengist við loftslagsmál, loftgæðamál og efnamál. Þá hefur hún unnið í hlutastarfi fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, m.a. á sviði loftslagsmála og sjálfbærni. Hún hefur auk þess sinnt stundakennslu í umhverfis- og auðlindarétti í Háskóla Íslands og kennt umhverfisrétt hafsins í Háskólasetri Vestfjarða. Hrafnhildur gekk til liðs við Environice í október 2013. Í frístundum fer Hrafnhildur í langar gönguferðir, les skáldsögur og spilar eldgamla slagara á píanó.

CV_Hrafnhildur Bragadóttir

Menntun:
2003   Stúdentspróf frá MR
2006   BA-próf í lögfræði frá HÍ
2008   MA-próf í lögfræði frá HÍ

Starfsferill:
2008-2009 Lagastofnun HÍ
2008-2012 Stundakennsla við lagadeild HÍ
2009-2013 Umhverfisstofnun (í hlutastarfi 2012-2013)
2012-2013 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið (hlutastarf)
2013 –       Lögfræðingur hjá Environice