Ingibjörg Ólöf, eða Inga Lóa eins og hún er oftast kölluð, ólst upp í Borgarfirði á sveitabæ þar sem stunduð var hrossarækt. Eftir grunnskólanám á Varmalandi lá leiðin í heimavistarskóla á Akureyri en það nám varði ekki lengi því heimþráin var of mikil. Síðustu árin í menntaskólanum kláraði hún í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði, með stuttu stoppi í eina önn í Húsmæðraskólanum í Reykjavík þar sem hún var yngsti nemandinn í sögu skólans, aðeins 17 ára. Eftir útskrift úr Flensborg árið 2011 hélt hún í lýðháskóla í Danmörku í eina önn þar sem hún féll gjörsamlega fyrir landinu og eftir stutt stopp á Íslandi flutti hún þangað og endaði á því að búa þar næstu sex árin. Þar fór hún í snyrtifræðinám og fór svo að vinna á snyrtistofu í eldgömlu dönsku húsi á fjórum hæðum og komst í besta form lífs síns, hlaupandi á milli hæða. Árið 2017 flutti hún heim til Íslands og eftir einn vetur af umhugsun ákvað hún að breyta alveg um starfsferil og fara í nám í náttúru og umhverfisfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Náminu lauk hún vorið 2021 og fékk viðurkenningu fyrir hæstu einkunn í BS-verkefni á sinni braut. Inga Lóa er mikill náttúruverndarsinni og dýravinur og veit ekkert betra en að búa út í sveit með köttunum sínum tveimur, eiginmanni og syni. Inga Lóa hóf störf hjá Environice 7. september 2021 og hefur aðsetur á Hvanneyri, á aðalskrifstofu Environice.

Menntun:
2011                    Stúdentspróf af félagsfræðibraut, Flensborg
2015                    Iðnpróf í snyrtifræði við Beauty Wellness snyrtifræðiskólann í Horsens, Danmörku.
2021                    BS-próf í náttúru og umhverfisfræði af náttúrunýtingarbraut frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri

Starfsferill:
2015-2017          Snyrtifræðingur á snyrtistofunni Maria F í Randers, Danmörku.
2018-2020          Ýmis störf unnin með skóla og á sumrin, þjónn, þerna og starfsmaður á gróðurstöð
2021-2021          Fékk styrk frá Nýsköpunarsjóði til að rannsaka fjölbreytni innan tegunda hjá íslenskum hryggdýrum.
2021-                   Umhverfisfræðingur hjá Environice