Salome ólst upp á Eskifirði og er mikill Austfirðingur í sér. Mikið af fólkinu hennar býr fyrir austan og fjöllin, hafið, hálendið (og Austfjarðaþokan) hafa mótað hana frá upphafi. Hún verður því mjög óþreyjufull ef hún kemst ekki austur í lengri tíma. Eftir grunnskólanám á Eskifirði lá leiðin í heimavistarskóla á Egilsstöðum þar sem hún nam í tvö ár áður en hún flutti suður og kláraði stúdentsprófið þar. Í framhaldi af því lauk hún kennaranámi og náði sér líka í diplómu í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. Árið 2011 útskrifaðist hún síðan með MSc-próf í umhverfisfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð, nánar tiltekið úr alþjóðlegri háskóladeild sem yfirleitt gengur undir nafninu LUMES. Þar með var teningunum kastað og síðan þá hefur hún unnið sleitulaust að umhverfismálum. Fyrst réðst hún í að þróa nýtt umhverfisstjórnunarkerfi (Græn skref) fyrir stofnanir á vegum Reykjavíkurborgar og starfaði eftir það hjá Landvernd í sex ár, fyrst sem sérfræðingur á sviði umhverfismála og umhverfisstjórnunar og svo tímabundið sem framkvæmdastjóri. Hjá Landvernd sá hún m.a. um rekstur og stjórnun tveggja umhverfisvottunakerfa. Salome er líka með staðarvarðar- og landverðarréttindi og hefur passað gönguskála á Víknaslóðum á sumrin. Bæði þar og annars staðar hefur hún nýtt hvert tækifæri sem gefst til útivistar, m.a. með því að stunda fjallamennsku, ferðalög, útihlaup og skíði. Svo á hún líka eiginmann og þrjú börn. Haustið 2019 fluttu þau öll til Kaupmannahafnar og þar hefur Salome vinnuaðstöðu við Flæsketorvet.

Menntun:
2000  Stúdentspróf af náttúrufræðibraut, MK
2005  B.Ed. í kennslu náttúrugreina, KHÍ
2009  Diplóma í ferðamálafræði (90 ECTS), Háskólinn á Hólum
2011  MSc-próf í umhverfis- og sjálfbærnivísindum frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð (LUMES)

Starfsferill:
2005-2007  Náttúrufræðikennari, Hallormsstaðaskóla og Vesturbæjarskóla
2009           Verkefnastjóri hjá Bandalagi íslenskra farfugla
2011           Hönnun og þróun grænna skrefa hjá Reykjavíkurborg
2012-2017  Sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Landvernd
2017-2018  Framkvæmdastjóri Landverndar
2018-2019  Sérfræðingur hjá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna
2019-          Sérfræðingur hjá Environice