Í maí 2020 samdi Environice við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um útreikning á kolefnisspori landshlutans í heild, en verkefnið er hluti af Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024. Hlutverk Environice samkvæmt samningnum var m.a. að afla tölulegra upplýsinga og reikna kolefnisspor svæðisins 2019 út frá þeim.

Verkefnið var í aðalatriðum sambærilegt fyrri verkefnum Environice á þessu sviði sem unnin voru annars vegar fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og hins vegar fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga. Sambærilegt verkefni var einnig unnið fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi samhliða verkefninu fyrir höfuðborgarsvæðið.

Afrakstur verkefnisins var skýrsla sem skilað var í lok apríl 2021. Meginniðurstaða skýrslunnar var að samanlagt kolefnisspor svæðisins árið 2019 hafi numið 1.834.732 tonnum koldíoxíðígilda (CO2íg) og að þar af hafi 1.395.326 tonn (um 76%) verið samfélagslosun, 286.435 tonn (um 16%) losun frá stóriðju og 152.971 tonn (um 8%) losun frá landnotkun. Samkvæmt skýrslunni voru vegasamgöngur stærsti einstaki liðurinn í kolefnisspori höfuðborgarsvæðisins 2019, með rúm 25% af heildarlosuninni. Þar á eftir koma sjóflutningar (og fiskiskip) með tæp 22%, stóriðja með tæp 16%, urðun úrgangs með tæp 9% og landnotkun með rúm 8%. Öll önnur losun nam samanlagt um 20% af heildinni. Samkvæmt þessu er losun gróðurhúsalofttegunda frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu ekki verulega frábrugðin losun í öðrum landshlutum, nema í tveimur atriðum. Annars vegar er losun vegna landnotkunar á höfuðborgarsvæðinu aðeins lítið brot af sambærilegri losun á landsbyggðinni, enda er slík losun eðli málsins samkvæmt mest í landmiklum héruðum með mikið af framræstu votlendi. Hins vegar er losun frá stóriðju á höfuðborgarsvæðinu mun minni en að meðaltali í öðrum landshlutum, enda flest stóriðjufyrirtækin staðsett utan svæðisins.

Viðskiptavinur: Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH)

Tímarammi: Samningur undirritaður 27. maí 2020. Verklok vorið 2021.

Tengd útgáfa: Kolefnisspor höfuðborgarsvæðisins