Í dag birtist 800. umhverfisfróðleiksmolinn á vefsíðunni 2020.is, sem Environice hefur haldið úti frá því í ágúst 2012. Vefsíðan hefur að geyma dagleg fróðleikskorn um umhverfismál, þar sem fylgt er þeirri meginreglu að hvert innlegg sé ekki meira en 15 línur sem fela í sér útdrátt úr nýrri eða nýlegri umhverfisfrétt, sem ekki hefur birst áður í íslenskum fjölmiðlum svo vitað sé. Lögð er áhersla á skiljanlegt málfar og traustar heimildir. Neðst í hverri færslu er tengill á heimildina, sem í flestum tilvikum er á ensku eða Norðurlandamáli. Val á fréttum er byggt á faglegu mati á áreiðanleika og mikilvægi fréttarinnar. Reynt er að uppfæra síðuna fjórum sinnum í vikum, en vefsíðan mætir þó óhjákvæmilega afgangi á annatímum þar sem rekstur hennar byggir eingöngu á eigin fjármögnun.

Áttahundraðasti fréttapunkturinn á 2020.is fjallaði um kolefnisspor samloka sem breskir neytendur kaupa í þarlendum verslunum.