Umhverfismatsskýrsla vegna fyrirhugaðrar sorporkustöðvar með orkuvinnslu (sorporkuvers) á urðunarstaðnum á Strönd í Rangárþingi ytra var birt í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar í gær og þar gefst almenningi kostur á að kynna sér efni hennar og koma með athugasemdir innan lögbundins sex vikna frests, sem rennur út 2. janúar 2026. Environice hefur aðstoðað Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. við umhverfismatið, en gert er ráð fyrir að sorpstöðin setji stöðina upp og reki hana í samvinnu við fleiri aðila. Uppsett afl stöðvarinnar verður 1MW til að byrja með og er áætlað að orkan verði framleidd með brennslu á allt að 2.500-3.000 tonnum af blönduðum úrgangi á ári miðað við að brennslugildi úrgangsins sé 11 til 12 MJ/kg að jafnaði. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi stöðvarinnar taki til starfa í mars 2027 og að orkuframleiðsla þess áfanga jafngildi 8.000 MWh af heitu vatni á ári. Veitur, sem reka hitaveitu á svæðinu, hafa lýst áhuga á kaupum á orkunni og hyggjast nota hana til að hækka hitastig jarðhitavatns og bæta þannig nýtingu takmarkaðra jarðhitaauðlinda á svæðinu.
Meginniðurstaða umhverfismatsskýrslunnar er að sorporkuverið hafi óveruleg áhrif á umhverfið, umfram það sem hlýst nú þegar af starfseminni á Strönd.

