horga (448x336)Environice hefur lokið við mat á umhverfisáhrifum efnistöku í Hörgá, en vinna við matið hefur staðið yfir tvö síðustu ár. Verkefnið markar ákveðin tímamót, þar sem þetta mun í fyrsta skipti hérlendis sem unnið er sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum efnistöku úr svo löngum árfarvegi og í landi svo margra jarða.

Efnistaka úr árfarvegi hefur jafnan áhrif bæði fyrir ofan og neðan þann stað þar sem efnið er tekið. Því er ljóst að efnistakan getur haft áhrif á umhverfið í nokkurri fjarlægð og snert þannig einnig fjárhagslega hagsmuni annarra landeigenda við ána. Forsenda þess að hægt sé að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr árfarvegi er því sú að litið sé heildstætt á umhverfisáhrif efnistökunnar og að málið sé unnið í samráði við aðra landeigendur. Til að bregðast við þessu stofnuðu landeigendur við Hörgá félagið Hörgá sf. vorið 2013 í þeim tilgangi að „stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðefna í Hörgá og þverám hennar og minnka um leið hættu á landbroti og skemmdum á löndum við þær og í nágrenni þeirra“, eins og það er orðað í stofnsamningi félagsins. Markmiði sínu hyggst félagið ná með því að láta vinna „umhverfismat fyrir efnistöku úr viðkomandi ám og skipta tekjum af efnistökunni milli rétthafa með sanngjörnum hætti“. Eigendum allra jarða sem land eiga að Hörgá stóð til boða að gerast stofnaðilar í félaginu og þáði nær allir hlutaðeigandi aðilar það boð.

Gott skipulag á efnistöku úr vatnsfalli á borð við Hörgá skiptir miklu máli, enda miklir hagsmunir í húfi, bæði frá umhverfislegu og fjárhagslegu sjónarmiði. Mikill framburður er í ánni, sem þýðir í senn að efnistaka er víða möguleg og að farvegur árinnar breytist iðulega ef ekkert er að gert, með tilheyrandi tjóni, þ.m.t. á girðingum og ræktuðu landi. Hörgá er einnig góð veiðiá og því mikið í húfi að vel takist til. Sameiginlegt og heildstætt umhverfismat efnistökunnar er því forsenda þess að svo megi verða. Í matsvinnunni var m.a. horft til erlendra dæma um efnistöku úr löngum vatnsföllum.

Hrafnhildur Tryggvadóttir hafði veg og vanda að gerð umhverfismatsskýrslunnar fyrir hönd Environice, en verkið var unnið fyrir Hörgá sf. Hægt er að nálgast matsskýrsluna, álit Skipulagsstofnunar og önnur gögn um matið á heimasíðu Skipulagsstofnunar.

Hörgá. (Ljósm. Hrafnhildur Tryggvadóttir).

Hörgá. (Ljósm. Hrafnhildur Tryggvadóttir).