Norðurlandabúar nota sífellt meira af fötum og öðrum textílvörum og meirihlutinn af þessum varningi endar í ruslinu af notkun lokinni. Environice vinnur nú að því með þremur öðrum norrænum ráðgjafarstofum að þróa nýtt vottunarkerfi fyrir söfnun á notuðum textílvörum, með það að markmiði að tvöfalda söfnunina á næstu 10 árum. Vottunarkerfið verður prófað hjá nokkrum söfnunaraðilum á Norðurlöndunum, m.a. hjá H&M í Noregi.

Framleiðsla og notkun á textílvörum hefur í för með sér mikil áhrif á umhverfið. Með því að endurnota þessar vörur eða koma þeim í efnisendurvinnslu má draga verulega úr notkun á hráefnum, vatni, orku og kemískum efnum, en til að svo megi verða þarf að safna textílvörunum að notkun lokinni. Ein af forsendum aukinnar söfnunar er að til staðar sé gegnsætt kerfi sem tryggir trúverðugleika og kemur í veg fyrir óábyrga ráðstöfun á þessum varningi.

Sem neytandi þarf maður að geta treyst því að föt og aðrar textílvörur sem maður skilar til endurnotkunar eða efnisendurvinnslu séu meðhöndluð á sjálfbæran hátt, ekki síst þegar haft er í huga að stór hluti af því sem safnast er flutt út til flokkunar og endurvinnslu“, segir Anna Fråne, verkefnisstjóri hjá sænska ráðgjafarfyrirtækinu IVL sem hefur yfirumsjón með þróun kerfisins.

Vottunarkerfið sem um ræðir verður valkvætt og er ætlað þeim aðilum á Norðurlöndunum sem fást við söfnun og flokkun á notuðum textílvörum. Langtímamarkmið kerfisins er að tvöfalda söfnunina innan tíu ára frá því sem nú er, að 90% af því sem safnast verði endurnotað eða komið í efnisendurvinnslu, og að þar af verði a.m.k. 50% endurnotað.

IVL Svenska Miljöinstitutet leiðir verkefnið sem fyrr segir, en það er unnið fyrir vinnuhóp Norrænu ráðherranefndarinnar um úrgangsmál (Nordiska avfallsgruppen (NAG)). Auk IVL og Environice taka ráðgjafarstofurnar Copenhagen Resource Institute (CRI) í Danmörku og Østfoldforskning í Noregi þátt í verkefninu. Í kerfinu verða tilteknar viðmiðunarkröfur fyrir hvern einstakan hlekk í endurnotkunar- og endurvinnslukeðjunni, sem vottaðir söfnunaraðilar skuldbinda sig til að uppfylla.

Vottunarkerfið er nú á tilraunastigi þar sem viðmiðunarkröfurnar er prófaðar hjá nokkrum söfnunaraðilum á Norðurlöndunum, þ.e. hjá Myrorna í Svíþjóð, UFF Humana í Danmörku og Fretex og H&M í Noregi. Þungamiðjan í verkefninu er á Eyrarsundssvæðinu, þar sem unnið er í samvinnu við borgaryfirvöld í Malmö og Kaupmannahöfn, svo og í sveitarfélaginu Halden í Noregi, en þessi þrjú sveitarfélög gegna hlutverki tilraunasveitarfélaga í verkefninu.

Vottunarkerfið er hluti af verkefninu „Nordic textile reuse and recycling commitment“ sem aftur er hluti af verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar um grænan hagvöxt. Hægt er fylgjast með innleiðingu vottunarkerfisins á sérstakri heimasíðu verkefnisins,http://www.textilecommitment.org.