Environice aðstoðar sveitarfélög á Norðurlandi, allt frá Hrútafirði í vestri að Bakkafirði í austri, við gerð sameiginlegrar svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs. Áætlunargerðin er lagaskylda skv. lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Sveitarstjórn, einni eða fleiri í sameiningu, ber skv. lögunum að semja og staðfesta svæðisáætlun em gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir.

Í svæðisáætlun eiga m.a. að koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir. Að lokinni auglýsingu og kynningu áætlunarinnar skal sveitarstjórn staðfesta áætlunina og skal hún vera aðgengileg almenningi.

Tillaga að svæðisáætluninni, ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við III. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2012, liggur nú fyrir og gefst almenningi sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfismatsskýrsluna og koma athugasemdum sínum á framfæri áður en áætlunin er afgreidd af viðkomandi sveitarstjórnum. Hægt er að kynna sér tillöguna á vefsíðum Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi, þ.e. á www.ssnv.is og www.ssne.is, svo og á vefsíðu Environice (sjá tengil hér að neðan). Skriflegar ábendingar og athugasemdir skulu berast í síðasta lagi 31. mars 2023 á netfangið stefan@environice.is eða í pósti á heimilisfangið:

Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.
v/ Svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi
Hvanneyrargötu 3
311 Hvanneyri

Verkkaupi: Öll sveitarfélög á Norðurlandi
Verklok: Verkið hófst í janúar 2022. Verklok eru áformuð vorið 2023.
Útgáfa: Svaedisaaetlun-Nordurland-TILLAGA-til-kynningar-feb-2023