Í nóvember 2023 var gengið frá samningi milli Environice og Fjórðungssambands Vestfirðinga um gerð svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Vestfjörðum. Verkefnið byggir á samþykkt Fjórðungsþings haustið 2022 þess efnis að öll níu sveitarfélögin í fjórðungnum hyggist vinna sameiginlega að áætlunargerðinni. Svæðisáætlun er lagaskylda skv. lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Sveitarstjórn, einni eða fleiri í sameiningu, ber skv. lögunum að semja og staðfesta svæðisáætlun em gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir.

Í svæðisáætlun eiga m.a. að koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir. Þetta felur m.a. í sér skoðun á þörf fyrir innviði fyrir meðhöndlun úrgangs á svæðinu. Að lokinni auglýsingu og kynningu áætlunarinnar skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir staðfesta hana og skal hún vera aðgengileg almenningi.

Verkið hófst af fullum krafti í desember 2023. Skipaður var vinnuhópur með fulltrúum allra sveitarfélaganna á svæðinu og var fyrsti fundur hópsins haldinn 13. desember. Hópurinn mun funda mánaðarlega á verktímanum. Vestfjarðastofa hefur umsjón með verkinu fyrir hönd sveitarfélaganna.

Gert er ráð fyrir að tillaga að svæðisáætluninni, ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við III. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2012, liggi fyrir á útmánuðum 2024 og verði send til afgreiðslu í hlutaðeigandi sveitarstjórnum fyrir vorið, að loknu sex vikna kynningarferli. Áætlunin öðlast svo gildi þegar allar sveitarstjórnirnar hafa samþykkt hana.

Verkkaupi: Fjórðungssamband Vestfirðinga
Tímarammi: Verkið hófst í desember 2023. Áætluð verklok vorið 2024.
Útgáfa: