Úrvinnslusjóður birti í dag úttekt Environice á afdrifum drykkjarferna, en úttektin var unnin fyrir sjóðinn í framhaldi af umræðu í fjölmiðlum sl. vor þar sem því var haldið fram að meðhöndlun þjónustuaðila Úrvinnslusjóðs á drykkjarfernum væri ekki eins og best væri á kosið og að fernur sem sendar væru til endurvinnslu væru að mestu leyti nýttar til orkuvinnslu í stað efnisendurvinnslu. Úttektinni var ætlað að svara nokkrum grundvallarspurningum um núverandi ferli við úrvinnslu drykkjarferna. Meginniðurstaðan var sú að núverandi ferli væri fullnægjandi gagnvart markmiðum um endurvinnsluhlutföll pappírsumbúða, en að engu að síður væri þörf á breytingum á nokkrum þáttum til að mæta áherslum hringrásarhagkerfisins og þeim lagakröfum sem fyrirsjáanlegar þykja vera í nánustu framtíð.

 

Hægt er að nálgast úttektina í heild á heimasíðu Úrvinnslusjóðs.