Salome Hallfreðsdóttir umhverfisfræðingur hóf störf hjá Environice í byrjun þessarar viku, nánar tiltekið 1. apríl sl. Salome er uppalin á Eskifirði, er grunnskólakennari að mennt, en er einnig með diplómu í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum og meistaragráðu (MSc) í umhverfisfræðum frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

Salome hefur unnið sleitulaust að umhverfismálum síðustu 8 ár, þ.m.t. sex ár sem verkefnisstjóri hjá Landvernd og síðar sem framkvæmdastjóri samtakanna. Síðustu mánuði hefur hún starfað hjá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og því starfi mun hún halda áfram enn um sinn samhliða störfum sínum fyrir Environice.

Salome mun sinna margs konar verkefnum á nýja vinnustaðnum, m.a. ráðgjöf um innleiðingu sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum, auk ráðgjafar um umhverfismál sveitarfélaga o.m.fl.

Environice fagnar þessum öfluga liðstyrk sem gerir fyrirtækið enn betur í stakk til þess búið en ella að verða núverandi og komandi kynslóðum að liði á leið þeirra inn í bjarta framtíð.