Sveitarstjórnarfólk og starfsmenn sveitarfélaga ræða sorpbrennslu á fundi í Bolungarvík. (Ljósm. Jón Páll Hreinsson).

Framtíð úrgangsmála var til umræðu í fundaferð Stefáns Gíslasonar um norðanverða Vestfirði í gær, mánudag, en fundirnir voru skipulagðir af Vestfjarðastofu. Á fundi í Bolungarvík með sveitarstjórnarmönnum frá Ísafjarðarbæ og Bolungarvíkurkaupstað var rætt um hugmyndir um byggingu sorporkustöðvar á svæðinu og farið yfir helstu tækifæri og ógnir sem fylgja slíku verkefni. Eftir það var fundað með fulltrúum fyrirtækja á Ísafirði um úrgangsmál fyrirtækja og fyrirsjáanlegar breytingar sem fylgja munu breyttri úrgangslöggjöf og aukinni áherslu á loftslagsmál. Síðdegis var svo haldinn opinn íbúafundur í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, þar sem einkum var rætt um mikilvægi vandaðrar flokkunar úrgangs.

Tilefni fundanna voru m.a. þær breytingar sem verða munu á íslenskri löggjöf um úrgangsmál í framhaldi af nýsamþykktum breytingum á úrgangstilskipunum Evrópusambandsins. Með breytingunum er verið að leitast við að innleiða áherslur Hringrásarhagkerfisins í regluverkið, með megináherslu á að nýta auðlindir sem allra best í stað þess að tapa þeim út úr hagkerfinu eins og gerist t.d. þegar úrgangur er urðaður.

Sem fyrr segir stóð Vestfjarðastofa að fundunum, en þar á bæ er lögð mikil áhersla á umræðu og upplýsingar um umhverfismál í tengslum við Earth Check vottun Vestfjarða.

Stefán Gíslason á fundi um úrgangsmál með fulltrúum atvinnulífsins á Ísafirði. (Ljósm. Lína Björg Tryggvadóttir).