Environice er fulltrúi Íslands í nýju þriggja ára verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar um þjónustu í stað vöru (e. Product Service Systems (PSS)). Verkefnið er hluti af viðleitni Norðurlandanna til að verða sjálfbærasta svæði heimsins og fyrirmynd annarra í innleiðingu hringrásarhagkerfis.

Tilgangur verkefnisins er að kanna og sýna fram á þann þátt sem sala á þjónustu í stað vöru getur átt í umskiptunum úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi. Þarna er í raun um að ræða nýtt viðskiptamódel, þar sem notandi, hvort sem um er að ræða einstakling, fyrirtæki eða stofnun, eignast ekki vöruna sem slíka (t.d. bíl, ísskáp, borvél eða tjald), en kaupir þess í stað þjónustuna sem varan veitir, (t.d. ferðalag, kælingu, gat í vegg eða útilegu). Seljandinn er þá eftir sem áður eigandi vörunnar og sér alfarið um viðhald hennar, endurnýjun og förgun.

Ráðgjafarstofan PlanMiljø í Danmörku leiðir verkefnið, en aðrir þátttakendur eru NORSUS í Noregi, VTT í Finnlandi, og Rise í Svíþjóð, auk Environice, alþjóðlegu rágjafarstofunnar VITO og The International Institute for Industrial Environmental Economics (IIIEE) við háskólann í Lundi.

Verkefnið mun að miklu leyti byggja á reynslu norrænna fyrirtækja, samtaka og notenda af PSS-lausnum. Veigamesti hluti verkefnisins felst því að setja í gang frumkvöðlaverkefni (e. Pilot Projects) víða um Norðurlöndin, þar sem rýnt verður í umhverfisleg og félagshagfræðileg áhrif PSS-lausna. Þessi verkefni hefjast í ársbyrjun 2023 – og ekki er loku fyrir það skotið að íslensk fyrirtæki verði valin til þátttöku í þeim.

Nánari upplýsingar um verkefnið er hægt að fá hjá Stefáni Gíslasyni hjá Environice og á heimasíðu verkefnisins, https://planmiljoe.wixsite.com/pssinthenordics. Verkefnið er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni í gegnum vinnuhópinn um hringrásarhagkerfi (NCE-gruppen).