í dag hélt Stefán Gíslason erindi um innleiðingu Sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna á ráðstefnu í Ystad í Svíþjóð. Ráðstefnan er hluti af norrænu verkefni undir yfirskriftinni Attractive Nordic towns and regions, en þetta er verkefni sem norsk stjórnvöld hleyptu af stokkunum á árinu 2017 þegar Norðmenn gengdu formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Alls taka 16 norræn sveitarfélög þátt í verkefninu sem hér um ræðir, þar af fjögur frá Íslandi; Akranes, Fljótsdalshérað, Mosfellsbær og Sveitarfélagið Hornafjörður. Tilgangurinn með verkefninu er að auðvelda þátttökusveitarfélögunum að verða hluti af lausninni á þeim umhverfis- og loftslagsvanda sem við er að glíma, m.a. með því að skapa vettvang þar sem fulltrúar sveitarfélaganna geta skipst á hugmyndum og reynslusögum. Allt er þetta liður í að skapa betri bæi sem laða til sín íbúa.

Alls taka um 75 manns þátt í ráðstefnunni í Ystad. Framlag Environice til ráðstefnunnar var sem fyrr segir erindi um innleiðingu Sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna, en sú vinna er í raun nátengd vinnunni við Staðardagskrá 21 sem Environice aðstoðaði íslensk sveitarfélög við á árunum 2000-2009.