Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, tekur við skýrslunni úr hendi Stefáns Gíslasonar, framkvæmdastjóra Environice.
(Ljósm. Katrín María Andrésdóttir)

Í dag afhenti framkvæmdastjóri Environice formanni Sambands garðyrkjubænda niðurstöður útreikninga á kolefnisspori íslenskrar garðyrkju, en Environice hefur unnið að þessu verki um nokkurra mánaða skeið fyrir garðyrkjubændur.

Niðurstöðurnar sem afhentar voru í dag eru í raun tvenns konar. Annars vegar hefur Environice útbúið reiknilíkan sem gerir einstökum garðyrkjubændum kleift að reikna kolefnisspor búa sinna út frá upplýsingum um framleiðslumagn, aðföng, orkunotkun, úrgang o.fl. Félagsmenn í Sambandi garðyrkjubænda munu fljótlega fá aðgang að þessu líkani á svonefndu Bændatorgi, sem er er veflæg upplýsingagátt fyrir bændur og ráðunauta. Hins vegar birtast niðurstöður Environice í skýrslu þar sem m.a. er farið yfir þá þætti sem vega þyngst í kolefnisspori einstakra greina garðyrkjunnar og bent á leiðir til að minnka sporið með aðhaldsaðgerðum og/eða landbótaaðgerðum á borð við landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslu Environice er að samanlagt kolefnisspor allrar garðyrkju á Íslandi sé að öllum líkindum um 6.000 tonn koldíoxíðsígilda á ári að teknu tilliti til framleiðslu og flutnings aðfanga, svo og flutnings framleiðsluvöru frá viðkomandi búi til dreifingarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Einnig kemur fram að kolefnisspor hvers kílós af matvöru sem garðyrkjubændur framleiða sé aðeins lítið brot af kolefnisspori sama magns af dýraafurðum, þó með fyrirvara um mismunandi næringarefna- og orkuinnihald mismunandi matvæla.

Stefán Gíslason, framkvæmdastjóri Environice, er aðalhöfundur skýrslunnar sem um ræðir, en Birna Sigrún Hallsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá sama fyrirtæki, hafði veg og vanda að hönnun reiknilíkansins.