Vorið 2018 gengu Environice og Akureyrarkaupstaður frá samkomulagi um ráðgjöf næstu misserin vegna útreikninga á kolefnisspori bæjarins. Verkefnið tengist vinnu Akureyrarkaupstaðar við að uppfylla kröfur Global Covenant of Mayors for Climate & Energy (GCoM), sem er sameiginleg yfirlýsing borgarstjóra um heim allan um vilja sinn til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, styrkja viðnámsþol gegn loftslagsbreytingum, birta tölulegar upplýsingar um frammistöðu viðkomandi borga í loftslagsmálum og setja markmið um enn betri frammistöðu. Aðild kaupstaðarins kallar á að kolefnissporið sé reiknað fyrir sveitarfélagið allt sem landfræðilegt svæði, auk útreikninga á kolefnisspori í eigin rekstri bæjarins.

Hlutverk Environice í samstarfinu er einkum að ráðleggja um aðferðafræði við útreikninginn og aðstoða við öflun tölulegra upplýsinga, markmiðssetningu, framsetningu og túlkun niðurstaðna.

Tiltækum tölum um kolefnisspor Akureyrarkaupstaðar fyrir árið 2017 var skilað inn í svonefnda CDP-gagnagátt 11. júlí 2018, og þaðan skila upplýsingarnar sér til GCoM. Síðan þá hefur sambærilegum tölum verið skilað árlega ásamt ítarlegum upplýsingum um stefnumótun og áætlanagerð bæjarins í loftslagsmálum. Þessar upplýsingar hafa verið bættar frá ári til árs og einkunn bæjarins fyrir frammistöðu sína í loftslagsmálum hefur hækkað jafnt og þétt í samræmi við það. Akureyarbær fékk einkunnina B+ frá CDP fyrir árið 2019 og bjartsýni ríkir um að bærinn færist upp í hóp fremstu sveitarfélaga heims á þessu sviði þegar tölum ársins 2020 hefur verið skilað inn.

Viðskiptavinur: Akureyrarbær

Áætlaður tímarammi: Frá 2018

Tengd útgáfa: Kolefnisspor Akureyrar 2019