Veturinn 2012-2013 drapst gríðarlegt magn síldar í Kolgrafafirði vegna súrefnisskorts. Þann 13. desember 2012 er talið að þar hafi samtals drepist um 30 þúsund tonn – og síðan um 22 þúsund tonn þann 1. febrúar 2013. Í kyrru veðri blandast lítið af súrefni í sjóinn úr lofti og súrefnisblöndun frá hafinu fyrir utan er jafnframt takmörkuð vegna þess hversu lokaður fjörðurinn er. Af þessum sökum getur súrefnismettun í firðinum farið niður fyrir hættumörk á skömmum tíma þegar mest líf er í firðinum. Líkur voru taldar á að síldardauðnn gæti endurtekið sig og e.t.v. skall hurð nærri hælum þegar mikið magn af síld gekk í fjörðinn á nýjan leik í nóvember 2013. Í framhaldi af þessu óskaði umhverfis- og auðlindaráðuneytið eftir því að Environice tæki saman minnisblað um leiðir til að nýta sem best þau verðmæti sem til falla ef síld drepst í stórum stíl og til að afstýra að sem mestu leyti neikvæðum áhrifum síldardauðans á umhverfið.

Vinna við minnisblaðið hófst í nóvember 2013 og var lokið í febrúar 2014.

Viðskiptavinur: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Áætlaður tímarammi: Nóvember 2013 – febrúar 2014

Tengd útgáfa: 30 þúsund tonn af nýdauðri síld. Minnisblað um björgun verðmæta í Kolgrafafirði. (Hefur ekki birst opinberlega).