Veturinn 2016-2017 vann Environice minnisblað um örplast í fráveituvatni fyrir Skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg. Minnisblaðinu var einkum ætlað að benda á möguleika á hreinsun örplasts úr vatninu og meta kostnað við aðgerðir sem líklegar eru til að tryggja viðunandi hreinsun. Tilefni þessarar vinnu var öðru fremur norræn skýrsla sem kom út á árinu 2016, en þar kom fram að mun fleiri plastagnir sleppa í gegnum fráveitumannvirki Reykjavíkursvæðisins en við borgir á hinum Norðurlöndunum.

Meginniðurstaða minnisblaðsins var að hægt væri að hreinsa nær allt örplast úr fráveituvatninu með fyrsta þreps hreinsun, þ.e. með setþróm eða síubúnaði. Erfitt væri hins vegar að áætla kostnað án frekari athugana á aðstæðum. Þá kom fram að ástæða væri til að kortleggja farvegi ofanvatns sérstaklega, enda bendi erlendar rannsóknir til að mjög stór hluti þess örplasts sem losnar út í umhverfið í borgum sé upprunnið úr hjólbörðum og malbiki.

Minnisblaðið var að mestu frágengið í nóvember 2016, en á útmánuðum 2017 hélt Environice nokkra fundi með stofnunum og nefndum Reykjavíkurborgar þar sem minnisblaðið var kynnt og farið nánar yfir þær aðgerðir sem líklegastar þykja til að skila árangri.

Viðskiptavinur: Reykjavíkurborg

Tímarammi: Október 2016 –mars 2017

Tengd útgáfa: Minnisblað um örplast í fráveituvatni