Á árunum 1998-2009 stóðu Samband íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytið sameiginlega að verkefni til að aðstoða íslensk sveitarfélög við að koma sér upp Staðardagskrá 21 (Local Agenda 21) í samræmi við ályktanir heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992. Þetta samstarf hófst haustið 1998 í framhaldi af samkomulagi aðila frá því í mars sama ár. Stefán Gíslason hafði umsjón með verkefninu frá upphafi samkvæmt samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Environice yfirtók svo þennan samning þegar fyrirtækið var stofnað á útmánuðum árið 2000. Auk Stefáns unnu Arnheiður Hjörleifsdóttir og Ragnhildur Helga Jónsdóttir, þáv. starfsmenn Environice, að verkefninu um árabil.
Rúmur helmingur sveitarfélaga á Íslandi tók þátt í Staðardagskrárstarfinu með einhverjum hætti á meðan það stóð. Í þeim hópi voru öll fjölmennustu sveitarfélög landsins með samtals rúmlega 90% þjóðarinnar innan sinna marka.
Vorið 2003 var hleypt af stokkunum sérstöku þriggja ára verkefni til að aðstoða fámenn sveitarfélög við að koma sér upp Staðardagskrá 21. Þetta verkefni var liður í að fylgja eftir byggðaáætlun 2002-2005, en þar var m.a. bent á mikilvægi sjálfbærrar þróunar í byggðalegu tilliti. Þráðurinn var svo tekinn upp að nýju í ársbyrjun 2007 og unnið áfram í svipuðum anda og fyrr til ársloka 2009 þegar samningar um verkefnin runnu út.
Viðskiptavinur: Samband íslenskra sveitarfélaga
Tímarammi: 1998-2009
Tengd útgáfa: Áfangaskýrslur og Lokaskýrsla (2010)