Uppi eru áform um að útbúa fiskveg í jarðgöngum við hlið Barnafoss til að gera Hvítá fiskgenga ofan við fossinn. Með þessu opnast möguleiki á að nýta búsvæði Norðlingafljóts, sem rennur í Hvítá nokkru ofar, fyrir laxfiska og byggja þar upp sjálfbæran laxastofn. Þar með stækka náttúruleg búsvæði fyrir lax og þannig stuðlar framkvæmdin að vernd villtra laxastofna. Stjórn Veiðifélags Hvítár og Norðlingafljóts hefur veitt heimild til framkvæmda á vatnasvæði félagsins, með fyrirvara um öflun leyfa frá opinberum aðilum. Yfirlýsing stjórnarinnar þar um var samþykkt á félagsfundi veiðifélagsins 8. júní 2021.

Framkvæmdin sem um ræðir er óvenjuleg á tvennan hátt. Annars vegar er svæðið, sem fiskvegurinn mun liggja undir, friðlýst sem náttúruvætti – og hins vegar verður þetta fyrsti fiskvegurinn á Íslandi sem lagður er í jarðgöngum. Slíka fiskvegi má hins vegar víða finna erlendis, m.a. í Noregi.

Environice hefur aðstoðað við umhverfismat fiskvegarins. Matsáætlun lá frammi til kynningar sumarið 2025 og gert er ráð fyrir að drög að umhverfimatsskýrslu liggi fyrir í lok nóvember. Þegar þar að kemur mun skýrslan verða birt á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og gefst almenningi þá kostur á að kynna sér efni hennar og koma með athugasemdir innan lögbundins sex vikna frests sem Skipulagsstofnun tilgreinir.

Verkkaupi: Rati ehf. í samvinnu við Veiðifélag Hvítár og Norðlingafljóts

Tímarammi: Mars 2025 – Mars 2026

Tengd útgáfa: