Austurbrú stóð að gerð sameiginlegrar svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs fyrir öll sveitarfélög á Austurlandi, en þau eru nú fjögur talsins. Í nóvember 2024 var leitað til Environice um ráðgjöf við síðustu hluta verksins og hófst sú vinna af fullum krafti þá þegar. Árið 2006 hafði Environice aðstoðað við gerð svæðisáætlunar fyrir sveitarfélögin 11 sem þá voru á Austurlandi, en sú áætlun var unnin út frá eldri löggjöf og gildistími hennar rann út í árslok 2020.

Svæðisáætlun er lagaskylda skv. lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Sveitarstjórn, einni eða fleiri í sameiningu, ber skv. lögunum að semja og staðfesta svæðisáætlun sem gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir. Í svæðisáætlun eiga m.a. að koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná lögbundnum markmiðum í úrgangsmálum. Þetta felur m.a. í sér skoðun á þörf fyrir innviði fyrir meðhöndlun úrgangs á svæðinu. Að lokinni auglýsingu og kynningu áætlunarinnar skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir staðfesta hana og skal hún vera aðgengileg almenningi.

Kjarninn í áætlun af því tagi sem hér um ræðir er annars vegar stefna viðkomandi sveitarfélaga í úrgangsmálum og hins vegar aðgerðaáætlun þar sem lýst ef hvernig sveitarstjórnir hyggist ná fyrrgreindum markmiðum. Þessi hluti áætlunarinnar var m.a. mótaður á stefnumótunarfundi með fulltrúum hlutaðeigandi sveitarfélaga á Egilsstöðum 15. janúar 2025.

Tillaga að svæðisáætlun, ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við III. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, var lögð fram vorið 2025 og gafst almenningi þá sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfismatsskýrsluna og koma athugasemdum sínum á framfæri. Svæðisáætlunin var síðan endanlega samþykkt í öllum hlutaðeigandi sveitarstjórnum fyrir lok júní 2025. 

Verkkaupi: Austurbrú f.h. sveitarfélaga á Austurlandi
Tímarammi: Nóvember 2024 – apríl 2025
Útgáfa: Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Austurlandi