Snæbjörn Guðmundsson, stjórnarmaður í ÓFEIGU, (t.v.) tók við skýrslunni á föstudaginn úr hendi Stefáns Gíslasonar. Á myndinni er einnig Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur og meðhöfundur skýrslunnar.

Síðastliðinn föstudag afhenti Stefán Gíslason framkvæmdastjóri Environice stórn náttúrverndarsamtakanna ÓFEIGAR skýrslu sem Environice hefur tekið saman að beiðni samtakanna um áhrif hugsanlegrar friðlýsingar Drangajökulsvíðerna á umhverfi og samfélag í Árneshreppi og þar í kring.

Meginniðurstaða skýrslunnar er að friðlýsing Drangajökulsvíðerna sé líkleg til að hafa veruleg jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag í Árneshreppi. Í skýrslunni eru þessi áhrif m.a. borin saman við áhrif fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar, auk samanburðar við núllkost, þ.e. líklega þróun án aðgerða. Samkvæmt þessum samanburði hefur friðlýsing jákvæðari áhrif en virkjun á alla þætti sem skoðaðir voru, sérstaklega til lengri tíma litið.

Skilgreining friðlýsingar gerir það að verkum að „friðlýsing og virkjun geta ekki farið saman. Með virkjunarframkvæmdunum mætti auka tekjur sveitarfélagsins verulega til skamms tíma, en um leið væri mikilvægum hluta af aðdráttarafli svæðisins eytt til frambúðar og lokað á þá möguleika til atvinnuuppbyggingar til langs tíma sem felast í þessu aðdráttarafli“, eins og það er orðað í skýrslunni.

Skýrslunni um friðlýsingu Drangajökulsvíðerna er ætlað að styðja við vandaða ákvarðanatöku um ráðstöfun auðlinda á Ófeigsfjarðarheiði og á svæðinu þar í kring. Skýrsluna í heild má nálgast á heimasíðu Environice.