Environice hefur lokið við mat á umhverfisáhrifum efnistöku í landi Skorholts í Hvalfjarðarsveit, en vinna við matið hefur staðið yfir síðustu tvö árin. Umhverfismatsskýrsla vegna áframhaldandi efnistöku liggur nú frammi og getur hver sem er sent inn skriflega umsögn um hana til 12. apríl 2022.

Efnistaka hófst í landi Skorholts árið 1954 og nú áformar BM Vallá ehf að vinna þar allt að 2,5 milljónum m3 af malarefni til vibótar á næstu 30-40 árum. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er um 12,5 ha að stærð en raskað svæði vegna fyrri efnistöku er um 6,5 ha. Samtals verður röskun á landi því um 19 ha. Tilgangur efnistökunnar er að mæta efnisþörf fyrir malarefni og annað unnið efni á svæðum í nálægð við efnistökustaðinn. Framkvæmdarsvæðið er staðsett um 15 km frá Akranesi og 50 km frá Reykjavík. Allt unnið efni úr námunn er notað sem fylliefni í steinsteypu.
Framkvæmdin fellur í flokk A, lið 2.01, í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana  nr. 111/2021 og er því háð mati á umhverfisáhrifum.

Umhverfismatsskýrsla var lögð fram 1.3.2022. Allir geta kynnt sér umhverfismatsskýrsluna sem fyrr segir og veitt umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 12. apríl 2022 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.

Salome Hallfreðsdóttir hafði yfirumsjón með matsvinnunni f.h. Environice og annaðist gerð umhverfismatsskýrslunnar, en einnig hafa Ingibjörg Ólöf Benediktsdóttir og Stefán Gíslason komið að verkefninu. Hægt er að nálgast umhverfismatsskýrsluna á vef Skipulagsstofnunar.