Þann 18. maí sl. gaf Skipulagsstofnun út álit vegna umhverfismatsskýrslu sem Environice vann fyrir BM Vallá vegna efnistöku í landi Skorholts í Hvalfjarðarsveit. Þar með er umhverfismatinu formlega lokið, en matið er nauðsynleg forsenda þess að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar geti gefið út framkvæmdaleyfi fyrir áframhaldandi vinnslu efnis úr námunni.

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telji að umhverfismatsskýrslan uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Sjónræn áhrif efnistökunnar verði „nokkuð neikvæð en staðbundin, sökum stærðar námunnar og því mikla svæði sem þar á að raska auk samlegðaráhrifa með núverandi Bakkanámu og fyrirhugaðri aukningu á efnistöku úr þeirri námu“. Svæðið sé niðurgrafið og í hvarfi frá fjölförnustu stöðunum í kring og því verði ásýndaráhrifin mildari en ella. Áhrif á jarðmyndanir verði nokkuð neikvæð þar sem um varanlega eyðingu jarðefna sé um að ræða. Jarðmyndanirnar á svæðinu njóti þó ekki sérstakrar verndar, auk þess sem þeim hefur nú þegar verið raskað. Áhrif vegna foks ættu að verða takmörkuð með kynntum mótvægisaðgerðum og framkvæmdin hafi óveruleg áhrif á gróður og fuglalíf, þar sem um sé að ræða efnistöku í gróðurlitlum mel með lítilli jarðvegsþekju og fremur fábreyttu fuglalífi.

Efnistaka hófst í landi Skorholts árið 1954 og er reiknað með að þar verði unnir allt að 2,5 milljónum maf malarefni til vibótar á næstu 30-40 árum. Tilgangur efnistökunnar er að mæta efnisþörf fyrir malarefni og annað unnið efni á svæðum í nálægð við efnistökustaðinn. Framkvæmdarsvæðið er staðsett um 15 km frá Akranesi og 50 km frá Reykjavík. Allt unnið efni úr námunni er notað sem fylliefni í steinsteypu.

Hægt er að kynna sér öll gögn málsins í gagnagrunni Umhverfismats á vef Skipulagsstofnunar.