Með markvissum aðgerðum hefur embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi tekist að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi embættisins um allt að 50% á innan við tveimur árum – og gert er ráð fyrir að á árinu 2024 verði búið að ná um 75% samdrætti frá því sem var árið 2020. Fá eða engin dæmi munu vera um slíkt í umhverfisstarfi ríkisstofnana á Íslandi. Þessum árangri hefur einkum verið náð með því að rafvæða nær allan bílaflota embættisins.

Föstudaginn 8. desember 2023 afhenti Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir Lögreglunni á Vesturlandi sérstaka viðurkenningu Umhverfisstofnunar í tilefni af því að embættið hafði þá, auk framúrskarandi árangurs í loftslagsmálum, innleitt öll fimm grænu skrefin, en græn skref er verkefni fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni. 

Environice hefur verið Lögreglunni á Vesturlandi innan handar í umhverfisstarfi embættisins. Þetta samstarf hófst í árslok 2021 og hélt Ingibjörg Ólöf Benediktsdóttir að mestu leyti utan um verkið fyrir hönd Environice. Þetta starf hefur skilað einkar skjótum og góðum árangri. Vorið 2023 fékk embættið afhenta fyrstu sérútbúnu, fjórhjóladrifnu lögreglubifreiðina í Evrópu og í árslok 2023 verður búið að skipta öllum bílaflota embættisins út fyrir rafbíla, að frátöldum þremur bílum sem nýttir eru í sérstök verkefni. Eldsneytisnotkun vegna aksturs lögreglubifreiða hefur verið langstærsti þátturinn í kolefnisspori embættisins en gjörbreyting hefur orðið á þessu með rafvæðingu bílaflotans. 

Environice er stolt af því að hafa fengið tækifæri til að koma að umhverfisstarfi Lögreglustjórans á Vesturlandi og bindur vonir við að önnur lögregluumdæmi fylgi á eftir. Rafvæðing lögreglubifreiða ætti fljótt á litið að vera mun auðveldari á þéttbýlli svæðum þar sem akstursvegalengdir eru styttri – og því ætti fordæmi Lögreglunnar á Vesturlandi að fela í sér staðfestingu á því sem hægt er að gera ef viljinn er fyrir hendi.

Héraðsfréttablaðið Skessuhorn birti ítarleg frétt 13. desember 2023 um góðan árangur embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi í tilefni af afhendingu viðurkenningarinnar fyrir fimmta skrefið. Myndin sem fylgir hér er fengin úr þeirri umfjöllun. (Ljósm. Guðrún Jónsdóttir).