Lokaskýrsla verkefnisins um eldra fólk og loftslagsmál var birt á vef Norrænu ráðherranefndarinnar í morgun, en eins og fram hefur komið stýrði Environice verkefninu fyrir hönd umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Verkefnið var hluti af formennskuáætlun Íslands fyrir Norrænu ráðherranefndina 2023, hafði yfirskriftina Äldre folk och klimat – Nytta för båda två og gekk út á að efla samstarf milli hópa eldra fólks á Norðurlöndunum á sviði loftslagsmála.

Skýrslan sem um ræðir er gefin út í TemaNord ritröðinni, bæði á íslensku og á ensku. Hægt er að nálgast íslensku útgáfuna á https://pub.norden.org/temanord2023-554 og þá ensku á https://pub.norden.org/temanord2023-553. Tenglarnir vísa á vefútgáfur, en með því að smella á láréttu strikin ofarlega til hægri á síðunum opnast m.a. möguleiki á að sækja viðkomandi skýrslu í heilu lagi sem pdf-skjal.

Með útkomu lokaskýrslunnar lýkur þætti Environice í umræddu verkefni, en þessi vinna hefur þegar leitt til þess að undirbúningur er hafinn, bæði á Íslandi og í Færeyjum, að stofnun samtaka eldra fólks sem vill leggja sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar. Engin slík samtök hafa verið starfrækt í þessum löndum hingað til, en eldra fólk á hinum Norðurlöndunum hefur þegar bundist samtökum um þessi málefni eins og fram kemur í lokaskýrslunni. Þá má nefna að í framhaldi af verkefninu er hafinn undirbúninur að stórum norrænum og evrópskum fundi eldra fólks um þessi mál, sem væntanlega verður haldinn í Noregi á næsta ári (2025).

Ítarefni um verkefnið (á ensku) má nálgast á https://www.environice.is/thjonusta/norraena-verkefnid-aldre-folk-och-klimat-nytta-for-bada-tva.