Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. hefur í hyggju að koma upp brennsluofni á urðunarstaðnum á Strönd í Rangárþingi ytra fyrir dýrahræ og aðrar dýraleifar í áhættuflokki 1 og 2 frá sveitarfélögum og einkaaðilum á Suðurlandi, með afkastagetu allt að 4.000 tonn á ári. Undanfarin ár hafa dýrahræ frá sveitarfélögum og einkaaðilum á Suðurlandi farið til brennslu í Kölku eða til urðunar í Álfsnesi eða í Fíflholtum. Möguleikum Kölku á að taka við þessum úrgangi eru takmörk sett og urðun dýrahræja uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerðum um förgun dýraleifa. Fyrirhuguð uppsetning á brennsluofni á Strönd er liður í lausn á þeim bráða vanda sem skapast hefur af þessum sökum. Undirbúningur verksins er unninn í nánu samstarfi við önnur sveitarfélög á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands bs.

Environice annast mat á umhverfisáhrifum hræbrennslunnar. Drög að tillögu að matsáætlun voru lögð fram til kynningar í febrúar 2020. Engar athugasemdir bárust á kynningartímanum. Reiknað er með að endanleg tillaga að matsáætlun verði tilbúin í apríl 2020. Stefnt er að því að kynna frummatsskýrslu vegna framkvæmdarinnar síðusumars og niðurstöður matsins ættu að liggja fyrir í nóvember.

Viðskiptavinur: Sorpstöð Rangárvallasýslu bs.

Áætlaður tímarammi: Frá hausti 2019 til ársloka 2020

Tengd útgáfa: Drög að tillögu að matsáætlun