Environice hefur aðstoðað embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi við umbætur í umhverfisstarfi embættisins. Embættið vill vera í fararbroddi í umhverfismálum og hefur sett saman öflugt umhverfisteymi starfsfólks á öllum sex starfsstöðvum embættisins.
Innleiðing grænna skrefa og mótun loftslagsstefnu hafa verið meginstefin í samstarfi Environice og Lögreglunnar. Græn skref er verkefni fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Stofnanir sem taka þátt í þessu verkefni þurfa að fylgja gátlistum sem skipt er upp í fimm græn skref, sem hvert um sig felur í sér 20-40 aðgerðir sem þarf að innleiða í rekstri stofnananna. Umhverfisstofnun veitir síðan viðurkenningu fyrir hvert skref sem lokið er við. Um miðjan nóvember 2023 hafði starfsfólk embættisins uppfyllt allar kröfur skrefanna fimm og þann 8. desember 2023 fékk embættið sérstaka viðurkenningu Umhverfisstofnunar fyrir þann árangur.
Umhverfisstarf Lögreglunnar á Vesturlandi hefur skilað einkar skjótum og góðum árangri. Vorið 2023 fékk embættið afhenta fyrstu sérútbúnu, fjórhjóladrifnu Tesla Y lögreglu-bifreiðina í Evrópu og í árslok 2023 var búið að skipta öllum bílaflota embættisins út fyrir rafbíla, að frátöldum þremur bílum sem nýttir voru í sérstök verkefni. Starfsemi lögreglunnar fylgir mikill akstur og eðli málsins samkvæmt hefur losun gróðurhúsalofttegunda vegna akstursins um árabil verið langstærsti umhverfisþátturinn í starfseminni. Með rafvæðingu bílaflotans hefur dregið mjög hratt úr þessari losun.
Í desember 2021 var samþykkt loftslagsstefna fyrir Lögregluna á Vesturlandi, þar sem fram kom að stefnt væri að 30% samdrætti í heildarlosun fram til ársins 2030 miðað við árið 2020 sem grunnár. Þetta markmið náðist strax á árinu 2023, en þá þegar hafði heildarlosunin dregist saman um 53,32% frá viðmiðunarárinu. Árið 2024 var samdrátturinn kominn í 80,78% frá 2020.
Við afhendingu Kuðungsins, umhverfisverðlauna umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins 2. maí 2024, voru Lögreglunni á Vesturlandi veitt sérstök hvatningarverðlaun Kuðungsins. Þar kom fram að embættið væri fyrst lögregluembætta í Evrópu til að rafvæða bílaflota sinn og að sá árangur hefði hlotið mikla athygli innan og utan landsteinanna. Haustið 2024 fékk Lögreglan á Vesturlandi síðan „Silfurdekk“ Orkustofnunar sem viðurkenningu fyrir árangur í orkuskiptum bílaflota embættisins.
Viðskiptavinur: Lögreglustjórinn á Vesturlandi
Tímarammi: Verkið hófst í desember 2021 og stendur til ársloka 2030
Útgefið efni:
Loftslagsstefna Lögreglunnar á Vesturlandi
Umfjöllun Skessuhorns 13. desember 2023
Frétt um afhendingu „Silfurdekksins“
(Guðrún Jónsdóttir, blaðamaður Skessuhorns, tók myndina hér að neðan 8. des. 2023 þegar embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi fékk afhenta viðurkenningu Umhverfisstofnunar fyrir grænu skrefin fimm. Frá vinstri: Hilmar Þór Hilmarsson, Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir, Stefán Gíslason, Ásmundur Kr. Ásmundsson, Gunnar Jónsson, Jón Arnar Sigurþórsson og Hafþór Ingi Þorgrímsson).


